Matsfyrirtækið Standard & Poor’s (S&P) hefur hækkað mat sitt á Tryggingamiðstöðinni (TM) úr BB í BB+. Í rökstuðningi segir að grunnrekstur félagsins sé góður og hafi stöðugt batnað undanfarin 3 ár. Þá hafi stjórnendur náð athyglisverðum árangri við innleiðingu stefnu félagsins og að sá árangur sé m.a. forsenda hækkunarinnar.

Í tilkynningu frá TM er haft eftir forstjóranum Sigurði Viðarssyni að hækkunin sé athygliverð í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríki á fjármálamörkuðum um heim allan. TM sé eitt fárra íslenskra fyrirtækja sem S&P´s meti, þar af eina íslenska tryggingafélagið. „Þetta eru því ekki einungis jákvæðar fréttir fyrir starfsfólk og viðskiptavini TM, heldur einnig fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir hann.