Matsfyrirtækið Standard og Poor‘s (S&P) hefur hækkað lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar úr BB (neikvæðar horfur) í BB+ (neikvæðar horfur).

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá S&P en þar segir að hækkun lánshæfiseinkunnar Landsvirkjunar stafi einkum af breyttum áherslum í rekstri fyrirtækisins og því að markvisst sé unnið að því að draga úr áhættu í rekstri.

Þá kemur fram að rekstraráhætta Landsvirkjunar hafi minnkað með því að dregið hafi verið úr tengingu tekna við álverð, sem dragi úr áhættu í rekstri. Lausafjárstaða fyrirtækisins hafi styrkst með auknu aðgengi að fjármagni og hefur ekki lengur áhrif á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar.

Að lokum er bent á að neikvæðar horfur í einkunn Landsvirkjunar byggi á neikvæðum horfum á lánshæfismati íslenska ríkisins.