Matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) færði í dag fjárfestingarfélagið Berkshire Hathaway niður um einn lánshæfisflokk. Félagið var með lánshæfiseinkunnina AA+ en er nú með einkunnina AA. Horfur eru neikvæðar, að mati S&P. Í matinu segir m.a. að þótt tryggingahluti fyrirtækjasamstæðu Berkshire Hathaway sé stöðugur og afli félaginu tekna þá gegni öðru máli um hlutabréfaeign félagsins, sem breytist mikið.

Þessu til viðbótar segir S&P óvíst hver taki við af hinum aldna Warren Buffett þegar hann sest í helgan stein og hefur það áhrif á einkunnina. Buffett hefur hins vegar lýst því yfir að hann og stjórn Berkshire Hathaway hafi valið eftirmanninn en tekið ákvörðun um að halda því leyndu.

Breska dagblaðið Financial Times segir á vef sínum áður hafa slegið í brýnu á milli Buffetts og S&P en öldungurinn, sem fagnar 82 ára afmæli á árinu, gagnrýndi S&P harkalega þegar fyrirtækið lækkaði einkunnir bandaríska ríkisins í ágúst árið 2011. Nokkrum dögum eftir gagnrýni Buffets breytti S&P mati sínu á horfum Berkshire Hathaway úr stöðugum í neikvæðar.