Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor hefur lækkað lánshæfiseinkunn Grikklands um tvo flokka í B samkvæmt frétt Financial Times. Hafa fjárfestar verið að bíða fregna af aðgerðum evruríkja  til að aðstoða gríska ríkið við að endurfjármagna skuldir. Viðræður um væntanlegar aðgerðir fóru fram um helgina en enn liggur ekki fyrir í hverju þær muni nákvæmlega felast. Annað neyðarlán kemur til greina auk þess rætt er um að lengja núverandi lán og lækka vexti. Ekki er vitað hvort einhverjar afskriftir verða en sá möguleiki hefur líka verið nefndur.

Lánshæfiseinkunn Grikkja hefur ekki verið lægri og er sex flokkum neðan einkunn sem kallast fjárfestingahæf verðbréf. Því eru grísk ríkisskuldabréf nú í svokölluðum ruslflokki og hafa verið í meira en ár. Neyðarlán sem gríska ríkisstjórnin fékk frá ESB-löndum að upphæð 110 milljarðar evra var ekki fullnægjandi björgunarpakki svo gríska hagkerfið næði sér á strik á nýjan leik.

Nýleg rannsókn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sýnir fram á að öll lönd sem ekki hafa getað greitt skuldir sínar frá árinu 1975 voru í þessum ruslflokki í yfir ár áður en greiðslufall varð.