Matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur lækkað lánshæfiseinkunn þriggja stórra evrópskra banka, Credit Suisse, Deutsche Bank og Barclays úr A+ í A. Í frétt CNN segir að óvissa á mörkuðum og inngrip eftirlitsaðila séu að gera starfsemi stórra banka í álfunni erfiðari en áður og því hafi verið ákveðið að lækka einkunnina.

Horfur eru nú stöðugar að mati S&P og er því ekki líklegt að til frekari lækkana á einkunum bankanna þriggja komi í nánustu framtíð.

Kröfur um hærra eiginfjárhlutfall hafa leitt til þess að bankar í Evrópu hafa verið að sækja meira fé á mörkuðum. Hærra eiginfjárhlutfall mun koma niður á arðsemi eigin fjár, einkum nú þegar óstöðugleiki fer vaxandi á fjármálamörkuðum og horfur í efnahasmálum fara versnandi, að því er segir í frétt CNN.