Matsfyrirtækið Standard & Poor’s hefur lækkað lánshæfismat íslenska ríkisins fyrir skuldbindingar íslenska ríkisins í erlendri mynt. Lánshæfismat ríkisins lækkar úr A-/A-2 í BBB/A-3. Íslenska ríkið hefur jafnframt verið fjarlægt af athugunarlista.

Lánshæfismat Íbúðalánasjóðs lækkar jafnframt úr A-/A-2 í BBB/A-3. Sjóðurinn hefur einnig verið tekinn af athugunarlista.

Horfur íslenska ríkisins og Íbúðalánasjóðs eru neikvæðar: „Þessar breytingar á lánshæfismati koma í kjölfar yfirlýsinga íslensku ríkisstjórnarinnar að ábyrgst verði allar innistæður viðskiptabankanna, auk væntanlegrar löggjafar sem veita Fjármálaeftirlitinu stórauknar valdheimildir," segir í umsögn S&P.

S&P telur aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu hjálpa til við að takmarka fjárhagslega áhættu ríkisssjóðs og styðja við áframhaldandi fyrsta flokks lánshæfiseinkunn. En að sama skapi mun aðgangur íslenskra banka að erlendu lánsfjármagni verða enn erfiðari, sem mun hafa í för með sér mun meiri samdrátt raunhagkerfisins en áður var reiknað með. Sá samdráttur, ásamt gengisveikingu krónunnar mun skaða eignasafn bankanna, draga úr tekjum ríkisins og hafa slæm áhrif á skuldastöðu ríkisins sem hefur verið afar góð um skeið.

„Neikvæðar horfur eru fyrst og fremst til meðallangs tíma,” segir Eileen Zhang hjá S&P í samtali við Dow Jones. „Nú er spurningin hvort íslenskir stefnusmiðir geti aðlagað íslenska hagkerfið að lægri og minna flöktandi hagvexti til frambúðar, auk mun minna framlags frá fjármálageiranum."