Spánn hefur misst hæstu einkunn, AAA, hjá Standard & Poor's. Langtímaskuldir landsins voru lækkaðar um eitt þrep, í AA+, vegna versnandi fjármála hins opinbera. S&P segir að heimskreppan hafi dregið fram kerfislæga veikleika í spænsku hagkerfi. Spánn er fyrsta AAA-landið sem er lækkað eftir að fjármálakreppan kom fram árið 2007.

Togstreyta innan evrusvæðisins

Ákvörðunin dregur fram togstreytu innan evrusvæðisins á milli tiltöluelga traustra hagkerfa í norðri og hagkerfa Spánar, Portúgals, Ítalíu og Grikklands, sem hefðu gagn af veikari gjaldmiðli, að því er segir í frétt FT.

Vaxtamunur á milli Spáns og Þýskalands aldrei hærri

Evran lækkaði við þessa ákvörðun gagnvart jeni og dollar og vaxtamunur skuldabréfa á Spáni og í Þýskalandi varð meiri en hann hefur áður verið. Skuldatryggingaálag á spænsk skuldabréf fór einnig í hæstu hæðir, að sögn FT.

Grikkland var lækkað í liðinni viku

Spánn er fyrsta AAA-landið sem S&P hefur lækkað frá því Japan var lækkað árið 2001. Spánn er líka annað evrulandið sem hefur þurft að þola lækkun síðastliðna viku. Grikkland var lækkað úr A, sem er fimm þrepum fyrir neðan AAA, í A- síðastliðinn miðvikudag. Þá eiga Portúgal og Írland á hættu að verða lækkuð.