Standard & Poor's lækkaði í dag lánshæfismat ýmissa fjármálafyrirtækja vestanhafs. Meðal þeirra fyrirtækja sem uppskáru lakara mat voru Lehman Brothers, Merrill Lynch og Morgan Stanley. Hlutabréfamarkaðir tóku skarpa dýfu í kjölfarið, en S&P sagði jafnframt horfur vera neikvæðar. Reuters segir frá þessu í dag.

S&P telur fjármálafyrirtæki ennþá viðkvæm fyrir áföllum á húsnæðismörkuðum. Í kjölfar tilkynningar matfyrirtækisins snarhækkuðu ríkisskuldabréf í verði. Svo virðist sem tilkynning S&P hafi komið markaðsaðilum nokkuð á óvart, í ljósi umfangs þeirra og hversu stutt er í afkomutilkynningar.

S&P sagði jafnframt að Wachovia Corp eigi hættu á lækkun lánshæfismats síns, en félagið rak forsjóra sinn í síðustu viku. Horfum fyrir Bank of America og JPMorgan var síðan breytt í neikvæðar.

Fjármálafyrirtæki í Bandaríkjunum hafa nú þegar afskrifað 350 milljarða dollara vegna áhættusamra húsnæðislána. S&P telur að frekari afskrifta sé að vænta.