Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P)hefur lækkað einkunn Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og dótturfélags þess, Nemi Forsikring ASA í Noregi, úr BBB í BBB- en félögin hafa verið á athugunarlista síðan 9. júní sl.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en þar kemur einnig fram að horfur fyrirtækjanna eru metnar stöðugar

Þá kemur fram að megin ástæða þess að matsfyrirtækið grípur til þessarar ráðstöfunar er skuldastaða FL Group móðurfélags Tryggingarmiðstöðvarinnar.

Í tilkynningu Standard & Poor's kemur fram að eftir viðræður við stjórnendur FL Group álykti matsfyrirtækið að enn sé til staðar sú áhætta að eigið fé TM rýrni þrátt fyrir opinberar reglur, stjórnunarhætti og aðrar ráðstafanir sem koma eiga í veg fyrir slíkt. Það er hins vegar álit S&P að hæfni TM og Nemi til að standa við viðskiptalegar skuldbindingar sínar sé óbreytt.

„Stjórn TM lýsir yfir vonbrigðum sínum með þessa niðurstöðu og bendir á að fjárhagsleg staða TM og Nemi sé mjög sterk og félögin hafi sömu burði og áður til þess að þjóna viðskiptavinum sínum til framtíðar,“ segir í tilkynningu frá félaginu.