Sérfræðingar lánshæfismatsfyrirtækisins Standard & Poor's eru ósammála greiningu Danske Bank um 5-10% samdrátt landsframleiðslu á næstu tveimur árum.

Sérfræðingur fyrirtækisins segir í samtali við blaðamann Bloomberg fréttastofunnar að S&P geri ráð fyrir að hægist á hagvexti á árinu og að hann muni þurrkast út á næsta ári. Hins vegar segir sérfræðingur lánshæfismatsfyrirtækisins að hagvöxtur muni aukast aftur árið 2008 og verða í kringum 3%.

S&P segir að félagið hafi kynnt sér aðstæður og ástand íslenska hagkerfisins vandlega í fyrra, þegar fyrirtækið hækkaði lánshæfismat sitt í AA- fyrir langtímaskuldbingar í erlendri mynt og AA+ fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri mynt. Fyrirtækið staðfesti lánshæfismat sitt á íslenska ríkinu nýverið og segir hörfur stöðugar.

Sérfræðingur S&P sagði í samtali við Bloomberg að veiking krónunnar hefði ekki komið fyrirtækinu í opna skjöldu og að það hafi legið fyrir að viðskiptahallinn næði hámarki í lok ársins 2005 eða í ár. S&P segir að viðskiptahallinn muni dragast saman í 7% af landsframleiðslu á næsta ári og síga niður í 3% árið 2008 og 2% af landsframleiðslu árið 2009.

Einnig bendir S&P á að íslenska hagkerfið sé fljótt að aðlaga sig breyttum aðstæðum og bendir sérfræðingur fyrirtækisins á að samdráttur landsframleiðslu hafi verið 1% á árinu 2002 í kjölfar 3,8% hagvaxtar árið áður. En síðar á árinu 2002 varð viðsnúningur og 12,6 milljarða afgangur var að viðskiptum við útlönd árið 2002, samanborið við 33,4 milljarða viðskiptahalla árið áður.