Í dag hefst málflutningur verjenda matsfyrirtækisins Standard & Poor's í máli bandaríska ríkisins gegn fyrirtækinu. Í frétt Bloomberg segir að fyrirtækið muni krefjast frávísunar m.a. á grundvelli þess að enginn raunsær fjárfestir hefði tekið mark á yfirlýsingum fyrirtækisins um að lánshæfiseinkunnir þess væru sjálfstæðar, hlutlægar og án hagsmunaárekstra.

Þá munu lögmenn S&P einnig færa þau rök að lánshæfiseinkunnir og -möt fyrirtækisins hafi verið í takt við það sem önnur matsfyrirtæki og sérfræðingar á markaði hafi talið rétt.

Málið var höfðað í febrúar á þessu ári og snýr að lánshæfismati sem S&P gaf út fyrir fjölda sértryggðra skuldabréfa og skuldabréfavafninga. Í stefnunni segir að lánshæfismötin hafi verið smituð af viðleitni fyrirtækisins til að fá meiri viðskipti frá útgefendum bréfanna og vafninganna og að því hafi fyrirtækið svikið fjárfesta sem reiddu sig á lánshæfismötin.