Matsfyrirtækið Standard & Poor's segir kaup bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson á Actavis stóran bita. Það staðfesti lánshæfiseinkunnir Watson í BBB eftir að greint var frá viðskiptunum nú í kvöld en færir lánshæfishorfur úr stöðugum í neikvæðar.

Í rökum matsfyrirtækisins segir að um umfangsmestu fyrirtækjakaup Watson sé að ræða og sé fyrirtækið að taka áhættu þótt búist sé við að reksturinn styrkist verulega í kjölfarið. Watson greiðir samkvæmt því samkomulagi sem hefur verið undirritað 4,25 milljarða evra fyrir Actavis. Það gerir um 700 milljarða króna.

Bent er á í rökum matsfyrirtækisins á að Watson verði tvöfalt stærra eftir viðskiptin og muni velta sameinaðs fyrirtækis aukast um 50%. Hluti af vextinum skrifast á það að búast megi við fjölda samheitalyfja undan rifjum sameinaðs fyrirtækisins á næstu tveimur árum þegar fjöldi einkaleyfa á frumheitalyfjum rennur út.

Á hinn bóginn mun Watson standa eftir með talsverðar skuldir á bakinu til skamms tíma. Félagið fjármagnar kaupin með láni upp á tæpa sex milljarða dala, jafnvirði tæpra 760 milljarða íslenskra króna. Þetta er um 4,5 milljarðar evra eða allt kaupverðið sem Watson greiðir fyrir Actavis. Gert er ráð fyrir að stærð fyrirtækisins og áðurnefndur tekjuvöxtur í kjölfar kaupanna skili því hins vegar að félagið verði fjárhagslega sterkt næstu tvö árin.

Þá er bent á það í rökum fyrir matinu að Watson eigi um 224 milljónir dala af handbæru fé auk 493 milljóna dala af 500 milljón dala lánalínu sem er í gildi fram í september árið 2016. Þetta gera samtals 717 milljónir dala, jafnvirði rúmra 90 milljarða króna.