Sívaxandi skuldir japanska ríkisins valda því að matsfyrirtækið Standard & Poor's nálgast það nú að lækka lánshæfiseinkunn Japans. Kom þetta fram í viðtali sem Bloomberg birtir við Takahira Ogawa, yfirmann hjá S&P í Singapúr.

S&P gefur Japan nú einkunina AA- og hafa horfur verið neikvæðar síðan í apríl.

„Fjármál Japans versna með hverjum deginum, hverri sekúndu," sagði Ogawa. Hann sagði að segja mætti að S&P væri nú nær því en áður að lækka einkunn Japans, en það yrði ekki gert í flýti.