Standard & Poor´s hafa gefið út nýtt lánshæfismat á Íbúðalánasjóði en horfur sjóðsins eru metnar sem stöðugar og er sjóðnum gefin einkunnin BB/B. Í mati fyrirtækisins kemur fram að það ráðist að miklu leyti af stöðu ríkissjóðs. Mjög líklegt þykir að ríkissjóður myndi styðja við Íbúðalánasjóð ef sjóðurinn myndi lenda í vandræðum.

Fram kemur í mati Standard & Poor´s að mat þess gæti breyst og lækkað ef hlutverki sjóðsins verði breytt. Einnig kemur fram að matið gæti lækkað við frekara útlánatap vegna afskrifta á útlánum sjóðsins og ef frekari fjármögnun kemur ekki frá ríkissjóði eins og gert er ráð fyrir. Hækkun á matinu er sögð hugsanleg ef aukin arðsemi fæst af starfsemi sjóðsins og ef ríkissjóður styrkir eiginfjárstöðu sjóðsins.