Standard & Poors (S&P) hefur lækkað lánshæfismat Rússlands og sett landið í ruslflokk. Bloomberg greinir frá þessu.

S&P er fyrsta lánshæfisfyrirtækið sem setur landið í ruslflokk, en í mati fyrirtækisins kemur fram að slæmar horfur í efnahagsmálum hafi valdið lækkuninni. Rússar hafa átt erfitt uppdráttar að undanförnu vegna viðskiptaþvingana og lækkandi olíuverðs.

Segir S&P að litlar líkur séu á hagvexti í landinu á næstunni og reiknar með 2,4% samdrætti í efnahag landsins á tímabilinu 2015 til 2018.