Matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) hefur staðfest lánshæfiseinkunnina BBB-/A-3. Lánshæfishorfur eru stöðugar, að mati fyrirtækisins.

Í mati S&P segir m.a. að aðstæður hér séu fremur hagfelldar og að draga sé úr atvinnuleysi. Gert er ráð fyrir 2-3% hagvexti á ári fram til loka árs 2015. Forsendur fyrir hagvextinum er vöxtur í orkuiðnaði eða aukin fjölbreytni í útflutningi, að mati S&P.

Þá er í matinu talið til tekna að aðgerðir stjórnvalda eftir efnahagshrunið hafi á tiltölulega stuttum tíma komið efnahagslífinu á réttan kjöl og það opnað dyrnar að erlendum lánsfjármörkuðum. Bati efnahagslífsins og sveigjanleiki þess skýrist ekki síst af tæplega 40% veikingu krónunnar síðan um mitt ár 2007, að mati S&P.

Þá er tekið fram að erlendar skuldir og skuldir hins opinbera eru enn of háar. Á móti hefðu þær líklega orðið hærri ef gjaldeyrishöftum hefði ekki verið komið á síðla árs 2008. Taldar eru líkur að skuldafjallið lækki þegar fram í sæki með aðhaldssemi í ríkisfjármálum og auðveldi það afnámi gjaldeyrishafta á næstu árum.

Mat Standard & Poor's