Hagkerfi Íslands mun dragast saman um 7,5% af vergri landsframleiðslu á árinu gangi spá alþjóðlega matsfyrirtækisins Standard & Poor´s Glopal Ratings eftir. Samt sem áður telur matsfyrirtækið að horfur fyrir landið séu stöðugar og gefur ríkissjóði lánshæfiseinkunnina A/A-1.

Bendir félagið á að skuldir ríkisins hafi dregist saman, úr því að vera 80% af VLF árið 2011 í 28% nú, og segir það að lánshæfiseinkunnin geti hækkað meira ef áfram dregur úr skuldsetningu og staða hagkerfisins batni gagnvart ytri áhrifaþáttum.

Telur fyrirtækið að stjórnvöld séu því vel í stakk búin til að bregðast við samdrætti vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirunnar, og aðgerðirnar muni til skamms tíma draga úr líkum á hækkun einkunnarinnar, því aðgerðirnar sem þegar hafa verið boðaðar leiði til þess að halli af rekstri ríkissjóðs muni nema 6,5% af VLF.

Ekki verði af verðbólguskoti

Félagið segir jafnframt óvíst að hvaða leiti aðgerðir stjórnvalda muni draga úr samdrætti hagkerfisins, en þær gætu aukið við hagvöxtinn um allt að 12% miðað við án þeirra. Þrátt fyrir fall gengis krónunnar telur félagið ekki líklegt að verðbólguskot verði því samdráttur verði í eftirspurn innanlands sem og orkuverð í heiminum hefur lækkað.

Bendir félagið á að með 360 þúsund manna íbúafjölda og verga landsframleiðslu sem nemur 24 milljörðum Bandaríkjadala á ári, þá séu útflutningsgeirar landsins einhæfir. Þar af muni áhrifin á ferðaþjónustuna vera mjög mikil á næstu árum enda telur félagið að ferðaþjónusta muni fara að ná sér á strik smátt og smátt í fyrsta lagi árið 2022.

Jafnframt muni samdráttur í heimshagkerfinu hafa áhrif til lækkunar á álverði, samkvæmt LME.com stendur nú í 1.432 til 1.467 dölum tonnið en fari í 1.900 dali árið 2022. Áframleiðsla stendur nú undir 16% af útflutningi Íslands. Skýrslu S&P Global Ratings má lesa í heild sinni hér .