Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) hefur staðfest BBB-/A-3 lánshæfiseinkunn Arion banka og breytt horfum úr stöðugum í jákvæðar.

Breytingin á horfum S&P er fyrst og fremst byggð á jákvæðum breytingum í íslensku efnahagslífi.

S&P telur líklegt að sú jákvæða þróun haldi áfram í ljósi þess árangurs sem náðst hefur við undirbúning afnáms fjármagnshafta. Nýverið uppfærði S&P lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins í BBB+.

Að mati S&P felur staðfesting nauðasamninga föllnu bankanna í sér að verulega hafi dregið úr áhættuþáttum í tengslum við afnám fjármagnshafta.

Þá hafi betri rekstrarskilyrði skapast fyrir íslensk fjármálafyrirtæki og aðgangur þeirra að erlendum lánamörkuðum verður greiðari. Einnig telur S&P telur að eiginfjárstaða Arion banka muni halda áfram að styrkjast.