Standard & Poor’s (S&P) hefur staðfest lánshæfiseinkunnina BBB- fyrir TM. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að endurskoðun á matinu hafi farið fram í kjölfar þess að S&P gerði breytingar á matsreglum sínum fyrir tryggingafélög.

Samkvæmt tilkynningunni fela breytingarnar það í megin atriðum í sér, að gera matsþættina gagnsærri og skýrari. Einkunnagjöfin er nú brotin niður í undirþætti.

Haft er eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, að nýjar matsreglur S&P taki líkt og áður tillit til sem flestra þátta í efnahag, rekstri og rekstrarumhverfi vátryggingafélaga. Liður í því sé að meta markaðinn og efnahagslíf þess lands sem viðkomandi félög starfa í. Þannig sé Ísland þrepi fyrir neðan miðlungsáhættu (e. intermediate risk) og fær einkunnina „moderate risk".

Sigurður segir þennan þátt vega í nýjum matsreglum S&P meira en áður. Kjarnaeinkunn (e. anchor) sé dregin niður í BBB- vegna lánshæfismats íslenska ríkisins. Horfur TM séu sem fyrr metnar stöðugar en ekki séu líkur til þess að einkunn TM hækki nema að undangenginni hækkun á einkunn Íslands.