Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard and Poor’s staðfesti í dag mat sitt á lánshæfi Landsbankans. Lánshæfiseinkunn bankans er metin sem BBB-/A-3, og með jákvæðum horfum.

Áhætta í bankarekstri á Íslandi hefur minnkað, lánasöfn bankanna hafa batnað og útlit er fyrir 3% hagvöxt á landinu á næstu tveimur árum.

S&P benda þó á að án mótvægisaðgerða gæti afnám gjaldeyrishafta leitt til einhverra efnahagserfiðleika hérlendis. Þar með myndi áhætta í rekstri bankanna aukast.

Þrátt fyrir það telja S&P að stjórnvöld muni vinna skynsamlega að afléttingu hafta þannig að komist verði hjá nokkrum verulegum áhrifum á íslenskt efnahagslíf. Þessa ályktun dregur fyrirtækið út frá yfirlýsingum stjórnvalda.