Matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur breytt horfum fyrir lánshæfi ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar vegna áforma ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu fyrir heimili. Í skýrslu fyrirtækisins segir að af þessum áformum stafi umtalsverð áhætta fyrir fjármál íslenska ríkisins.

Skuldir ríkissjóðs gætu aukist til muna eftir því hve skuldaeftirgjöfin er umfangsmikil og því eru horfur nú taldar neikvæðar. Verði sú leið farin að fjármagna eftirgjöfina með því að láta kröfuhafa gömlu bankanna taka á sig niðurfærslu á kröfum myndi það draga úr trausti erlendra fjárfesta á Íslandi og tefja enn frekar afnám hafta.

Er það mat S&P að skuldaeftirgjöfin gæti numið allt að 10% af vergri landframleiðslu Ísland og gæti orðið mun meiri. Íbúðalánasjóður muni líklega bera bróðurpartinn af þessum kostnaði.

Í skýrslunni segir að þriðjungslíkur séu á því að lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins verði lækkuð á næstu tveimur árum.

Lesa má skýrslu S&P hér.