Greiningardeild Arion banka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% milli mánaða í maí. Gangi spáin eftir mun árstaktur verðbólgunnar lækka úr 1,6% í 1,5%. Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeilarinnar í dag. Í samantektinni er gert ráð fyrir að ársverðbólgan mælist áfram undir 2% fram að síðasta fjórðungi ársins, en þá hækki verðbólgan vegna þess hve miklar lækkanir voru á haustmánuðum í fyrra.

Greiningardeildin segir ólíklegt er að slíkar lækkanir endurtaki sig miðað við þá spennu sem sé í hagkerfinu um þessar mundir ásamt því sem heimsmarkaðsverð á olíu hafi hækkað og leiði það af sér hækkandi verðbólgu.

Í maímánuði er það húsnæðisliðurinn sem hækkar mest milli mánaða (+0,14% áhrif á VNV). Einnig hækka hótel og veitingastaðir (+0,05% áhrif á VNV) og föt og skór (+0,04% áhrif á VNV). Sömuleiðis hækkar eldsneytisverð (+0,05% áhrif á VNV) en á móti lækka flugfargjöld til útlanda (-0,06% áhrif á VNV) og stendur því ferðaliðurinn í heild sinni nokkurn veginn í stað.