Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,2% milli mánaða í nóvember. Að mati greiningardeildarinnar þá eru helstu liðir sem lækka ferðir og flutningar (-0,17% áhrif á VNV),þar af vegur lækkun flugfargjalda til útlanda þyngst. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Greining Íslandsbanka spáir því einnig að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,2% í nóvember frá fyrri mánuði. „Þar með eykst 12 mánaða verðbólgutakturinn úr 1,8% í 1,9%, gangi spá okkar eftir,“ segir í spá Íslandsbanka. „Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa lítið breyst frá síðustu spá okkar. Til skemmri tíma eigum við þó von á minni verðbólgu, en á móti eykst verðbólgan heldur hraðar þegar frá líður en í síðustu spá okkar. Eftir sem áður er útlit fyrir að verðbólga haldist undir 2,5% markmiði Seðlabankans út árið 2017. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast allhratt og vera í grennd við 4,0% efri þolmörk verðbólgumarkmiðs bankans á seinni hluta ársins 2018. Hagstofan birtir mælingu VNV kl. 09:00 þann 25. nóvember næstkomandi,“ kemur meðal annars fram í greiningu Íslandsbanka sem finna má hér .

Einnig lækka húsgögn og heimilisbúnaður, matarkarfan og póstur og sími, að mati greiningardeildar Arion banka. Hagstofa Íslands birtir mælingu sína fyrir vísitölu neysluverðs föstudaginn 25. nóvember næstkomandi.

Arion banki spáir því jafnframt að verðlagi komi til með að standa í stað í desember en lækki svo rækilega, eða um -0,8% í útsölunum í janúar. Þá spáir greiningardeildin 0,7% hækkun í febrúar á næsta ári þegar útsölur ganga til baka. Ef að spá Arion banka gengur eftir mun ársverðbólga standa í 1,4% í febrúar næsta árs.