Grein­ing­ar­deild Ari­on banka spá­ir því að pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands muni lækka meg­in­vexti bank­ans í næstu viku eða um 0,25%. Fyr­ir mánuði lækkaði bank­inn vexti sína um hálft pró­sentu­stig. Þetta kem­ur fram í markaðspunkt­um grein­ing­ar­deild­ar.

„Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands mun funda í byrj­un næstu viku og ákv­arða meg­in­vexti bank­ans. Það er aðeins mánuður síðan nefnd­in ákvað að lækka vexti um 50 punkta í kjöl­far breyttra efna­hags­horfa. Við fyrstu sýn hef­ur lítið breyst síðan þá, ferðamönn­um er enn að fækka, krón­an er enn að veikj­ast og það er enn út­lit fyr­ir efna­hags­sam­drátt í ár. Frá síðustu vaxta­ákvörðun hef­ur taum­hald pen­inga­stefn­unn­ar hins veg­ar þést og það mun hvetja nefnd­ina til að halda áfram á braut vaxta­lækk­un­ar. Þá hafa lík­urn­ar á meiri sam­drætti en grunn­spá Seðlabank­ans ger­ir ráð fyr­ir auk­ist. Þétt­ara taum­hald sam­hliða efna­hags­slaka er kokteill sem nefnd­in vill ekki bjóða upp á og spá­um við því að nefnd­in sam­mæl­ist um 25 punkta vaxta­lækk­un og að frek­ara svig­rúm sé til staðar," segir í markaðspunktum Greiningardeildarinnar.