Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,3% í ágúst. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga lækka lítillega, eða úr 2,4% í 2,3%. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir ágúst þann 27. ágúst.

Greiningardeildin spáir því að útsölulok muni vega þungt til hækkunar verðlags í ágúst. Gert er ráð fyrir að útsölulok verði til 0,3% hækkunar á vísitölu neysluverðs. Þá er gert ráð fyrir að húsnæðisliður hafi áhrif til 0,1% hækkunar.  Vísbendingar eru um að reiknuð húsaleiga muni hækka um 0,6% í mánuðinum, eftir lækkun í júní og kyrrstöðu í júlí.

Hins vegar spáir greiningardeild Íslandsbanka því að ferða- og flutningaliðurinn muni hafa áhrif til lækkunar. Annars vegar muni eldsneyti lækka og hafa 0,07% áhrif á vísitöluna. Hins vegar muni flugfargjöld til útlanda lækka eftir mikla hækkun í júlí og júní.

Greiningardeildin telur að verðbólga verði áfram hófleg það sem eftir lifir árs. Spáð er 0,5% hækkun vísitölu í september, 0,2% hækkun í október og nóvember og 0,3% hækkun í desember. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 2,3% í árslok.

Á næsta ári spáir greiningardeildin hins vegar meiri verðbólgu. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði um 3,0% á árinu 2015 og 3,1% á árinu 2016.