Greiningardeild Arion banka spáir 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í desember. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga fara lítillega undir verðbólgumarkmið Seðlabankans og mælast 2,4%.

Helstu þættir í verðbólguspá greiningardeildarinnar eru hækkun eldsneytisverðs,hækkun flugfargjalda og lítilsháttar hækkun húsnæðisliðar.

Segir að eldsneytisverð muni hafa um 0,2% áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs. „Ástæða hækkunar má að hluta til rekja til hækkunar á heimsmarkaðsverði á hráolíu ásamt því sem dollar hefur styrkst. Hinsvegar hefur eldsneytisverð hækkað meira hér heima en verðþróun ytra gefur e.t.v. tilefni til – sem er vísbending um aukna álagningu olíufélaganna á árinu,“ segir í spánni. Þá ert gert ráð fyrir að lækkun flugfargjalda í nóvember ganga til baka í desember, líkt og verið hefur síðustu ár.

„Í spá okkar er gert ráð fyrir lítilsháttar hækkun húsnæðisliðar, eingöngu vegna þess að áhrif októbermælingarinnar hafa ennþá áhrif (en í október mældist töluverð hækkun á fasteignaverði). Hins vegar lækkaði verð á viðhaldi húsnæðis í nóvember og útilokum við ekki frekari lækkanir í þessum mánuði. Eins og áður hefur verið bent á er húsnæðisliðurinn stór óvissuþáttur í verðbólguspá okkar enda sveiflukenndur liður og oft erfitt að meta áhrif húsnæðisliðar út frá mánaðarmælingu fasteignavísitölu FMR og Hagstofunnar þar sem sambandið þar á milli er frekar ófullkomið.“

Að mati Greiningardeildar eru verðbólguhorfur góðar, að því gefnu að krónan haldist stöðug. „Verði hins vegar áframhaldandi verðhækkanir á hrávörum úti í heimi er sú hætta fyrir hendi að einhver kostnaðarverðbólga skili sér til landsins vegna þessa. Þá er talsverð óvissa í kringum gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga í upphafi árs en við gerum ráð fyrir að þær verði umfangsmeiri en tíðkast hefur undanfarin ár. Gangi bráðabirgðaspá okkar eftir verður 12 mánaða verðbólga komin í 1,5% í mars.“