*

laugardagur, 25. janúar 2020
Innlent 14. ágúst 2018 11:22

Spá 0,4% hækkun neysluverðs í ágúst

Miðað við spá frá greinendum Íslandsbanka eykst verðbólga úr 2,7% í 2,8% í þessum mánuði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greinendur hjá Íslandsbanka spá því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í ágúst frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst verðbólga úr 2,7% í 2,8% í þessum mánuði. Útlit er fyrir að verðbólga verði um 3,1% í lok þessa árs og verði að jafnaði um 2,9% út árið 2019.

Hækkandi íbúðaverð vegur þyngst til hækkunar vísitölu neysluverðs í ágúst. Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, vegur til 0,17% hækkunar vísitölu neysluverðs. Í heild vegur húsnæðisliðurinn til 0,21% hækkunar í ágúst.

Útsölulok hafa einnig talsverð áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs í ágúst líkt og ávallt í þessum mánuði. Föt og skór vega til 0,20% hækkunar og húsgögn og heimilisbúnaður til 0,02% hækkunar. Einnig spáum við að matur og drykkjarvörur hækki vísitala neysluverðs um 0,05%.

Fáir liðir vega til lækkunar VNV í ágúst. Útlit er fyrir árstíðarbundna lækkun á flugfargjöldum um 11% í ágúst (-0,17% í VNV) eftir ríflega 23% hækkun í júlímánuði (0,31% í VNV). Við spáum því að liðurinn ferðir og flutningar vegi í heild til lækkunar VNV um 0,15%.

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aukast lítillega næstu mánuðina. Við spáum 0,3% hækkun í september, 0,3% hækkun í október og 0,1% hækkun í nóvember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,1% í nóvembermánuði. Áhrif útsöluloka munu setja svip sinn á mælingar ví9sitölu neysluverðs í september en á hinn bóginn gerum við ráð fyrir áframhaldandi árstíðarbundinni lækkun flugfargjalda í þeim mánuði.