Greiningardeild Arion banka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um tæp 0,4% í maí og að ársverðbólgan hækki úr 1,4% í 1,7%. Kemur þetta fram í Markaðspunktum greiningardeildarinnar. Þar segir að gert sé ráð fyrir að verðbólgan haldist á svipuðu róli næstu mánuði en að hún aukist hratt þegar líði á haustmánuðina og fari þá yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans sem nemur 2,5%.

Meðal þess sem gert er ráð fyrir í spánni er hækkun á eldsneyti og flugfargjöldum. Samkvæmt mælingum greiningdardeilarinnar hækkar bensín um 2,8% milli mánaða en díselolía um 0,4%. Einnig líti út fyrir að ferðaliðurinn, að frátöldu eldsneyti, hækki og hafi 0,06% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Þar vegi þyngst hækkun á flugfargjöldum til útlanda en mælingar bendi til að þau hafi hækkað um 4,4% milli mánaða.

Þá er gengið út frá því að Húsnæðisliður vísitölunnar hækki áfram þrátt fyrir verkföll. Spáir greiningardeildin 0,5% hækkun húsnæðisverðs í maí. Nokkur óvissa hefur verið um þróun húsnæðisverðs í maí mánuði vegna verkfalla, en fáar þinglýsingar áttu sér stað í apríl og er því skráð velta lítil sem engin. Einnig var meðalupphæð á hvern samning nokkuð lægri í apríl en undanfarna mánuði. Segir í Markaðspunktunum að vert sé að hafa í huga að mæling Hagstofunnar á húsnæðisverði byggist á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali íbúðaverðs í kaupsamningum og sé meðaltalið vegið eftir veltu hvers mánaðar fyrir sig. Mælingar febrúar og mars vegi því þyngra fyrir vikið sökum lítillar veltu í apríl og telur greiningardeildin því að nokkur hækkun húsnæðisverðs komi fram í maí mælingunni.