IFS greining spáir því að verðlag lækki um 0,4% í júlí. Gangi spáin eftir lækkar tólf mánaða verðbólga úr 2,2% í 2,1%.

Samkvæmt spánni vega útsöluáhrifin þyngst í verðbólgumælingum fyrir júlí. Gert er ráð fyrir að verð á fötum og skóm lækki um 10,7% í sumarútsölum júlímánaðar sem mun lækka vísitölu neysluverðs um 0,51%. Þá er gert ráð fyrir að verð á helstu innflutningsliðum frá Kína lækki í verði vegna fríverslunarsamnings sem tók gildi 1. júlí. Greiningin gerir ráð fyrir að flugfargjöld hækki um 5% í júlí. Samkvæmt spánni mun húsnæðisliður vísitölunnar hækka um 0,05% milli mánaða.

Bráðabirgðaspá fyrir næstu mánuði gerir ráð fyrir 0,4% hækkun verðlags í ágúst, 0,5% hækkun í september og 0,3% hækkun í október. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 2,6% í október. Eins og VB.is greindi frá í morgun spáir greiningardeild Arion banka 0,3% lækkun verðlags og óbreyttri verðbólgu.