IFS Greining spáir því að verðlag hækki um 0,4% á milli mánaða í júní. Gangi það eftir fer verðbólga úr 3,3% í 3,2%.

Forsendur verðbólguspár IFS Greiningar er sú að verð á bensíni hefur hækkað um 2,1% frá því í maí á meðan verð á díselolíu hefur hækkað um 0,4%. IFS Greining segir sömuleiðis að sú lækkun sem varð á verði nýrra bifreiða í maí virðast hafa gengið til baka nú samhliða gengisveikingu krónunnar. Á sama tíma lækkaði verð á flugi til útlanda um 6,4% í maí en hækkaði aftur um 6,8% í þessum mánuði. Frá því í desember hefur verð á flugi til útlanda hækkað um 7,3%, samkvæmt IFS Greiningu.

Þá bendir greiningarfyrirtækið á að vegna komu ferðamanna yfir sumartímann hafi liðurinn hótel og veitingastaðir hækkað á vormánuðum og sé gert ráð fyrir 1,3% hækkun í júní. Mörg hótel og gististaðir hækka sömuleiðis verðskrá sína yfir sumartímann þegar ferðamannastraumurinn er sem mestur.

IFS Greining spáir því að verðlag lækki um 0,6% í júlí en hækki aftur í ágúst og september og verði verðbólga komin í 3,6% í september.