Útlit er fyrir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs á milli september og október semkvæmt spá Greiningar Íslandsbanka. Þar kemur fram að fram að áhrif útsöluloka eru að stórum hluta þegar komin fram en restar hafa engu að síður áhrif til hækkunar vísitölunnar í október. Í spánni er gert ráð fyrir áframhaldandi hækkun á matvöruverði en það hefur hækkað töluvert frá því verðstríðið svokallaða stóð sem hæst á árinu.

Íslandsbanki spáir áframhaldandi hækkun á íbúðaverði sem hefur töluverð áhrif til hækkunar á vísitölunni í október. Dregið hefur úr húsnæðisverðhækkun að undanförnu og er verðbólgan af þeim sökum því minni nú en áður. Lækkun eldsneytisverðs í kjölfar lækkandi heimsmarkaðsverðs lækkar vísitöluna nú og reikna má með frekari verðlækkun á eldsneyti hér á landi á næstu dögum. Hagstofan mun birta vísitölu neysluverðs næst miðvikudaginn þann 12. október.

Verðbólgan mun mælast 4,4% gangi spá Íslandsbanka eftir og minnkar úr 4,8%. Áfram verður verðbólgan því yfir efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans (4%) og langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði hans. Um er að ræða sjötta mánuðinn á þessu ári sem verðbólgan er í eða yfir þolmörkunum. Verðbólgan hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í maí 2004 eða í 17 mánuði.