Seðlabanki Íslands spáir 0,4% samdrætti á árinu öllu og horfur eru á að verðbólga verði minni á árinu öllu heldur en gert var ráð fyrir. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýbirtum Peningamálum bankans .

Jafnframt kemur fram að blikur séu á lofti í íslensku efnahagslífi. „Viðskiptakjör hafa rýrnað og hratt dró úr fjölgun ferðamanna til landsins í fyrra, ekki síst þegar draga tók úr umsvifum flugfélagsins WOW Air undir lok síðasta árs. Snemma á þessu ári var ljóst að ferðamenn yrðu færri í ár en í fyrra og endanlegt fall WOW Air veldur því að þeim fækkar enn frekar. Við þetta bætist loðnubrestur og almennt verri horfur um útflutning sjávarafurða," segir í ritinu.

Í gær var greint frá því að Moody´s spái 0,1% hagvexti á landinu á þessu ári en fyrri spá matsfyrirtækisnins gerði ráð fyrir 2,5% hagvexti.

Þá er talið að atvinnuleysi muni aukast nokkuð og muni verða 3,9% að meðaltali á þessu ári sem er tæpu einu prósenti meira heldur en febrúarspá bankans gerði ráð fyrir.

Talið er að verðbólgan muni minnka lítillega fram á mitt ár en þó ekki jafnmikið og gert var ráð fyrir í febrúar.