Greiningardeild MP banka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,5% í nóvember. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 3,3% í 3,1%.

Segir í Markaðsvísi bankans að bensín hafi hækkað í verði um 2,5% frá síðustu mælingu Hagstofunnar og þá hefur gjaldskrárhækkun Orkuveitunnar einnig áhrif, þó þau séu minni en í síðasta mánuði. „Þessir tveir liðir valda hækkun neysluverðvísitölu um ríflega 0,3%. Flestir aðrir liðir hækka hóflega og við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,5% í nóvember,“ segir í Markaðsvísi MP banka.

Von á einhverjum launahækkunum

„Ekki eru horfur á miklum eftirspurnarþrýstingi á verðlag næstu misserin. Mikill slaki er í hagkerfinu og atvinnuleysi gæti aukist á ný. Engu að síður eigum við von á því að samið verði um einhverjar launahækkanir og að þær muni leiða til hækkunar verðlags. Virkt og öflugt fjármálakerfi er forsenda fyrir eðlilegri samkeppni á markaði. Meðan það er ekki fyrir hendi er líklegt að kostnaðarhækkanir hafi fljótt áhrif á verðlag.“

Hóflegar verðhækkanir á næstu mánuðum

Greiningardeildin spáir hóflegum verðhækkunum á allra næstu mánuðum. „Við eigum von á því að gengið muni veikjast á fyrri hluta næsta árs og gangi það eftir mun skapast frekari þrýstingur á verðlag. Við spáum því að verðhækkanir á allra næstu mánuðum verði hóflegar, en þegar líða tekur á næsta ár aukist verðbólga á ný vegna kostnaðarhækkana.

Verðbólga dettur líklega tímabundið undir verðbólgumarkmið á fyrri hluta næsta árs. Þegar líða tekur á árið má síðan búast við því að verðbólga aukist á ný og verði 3,5% til 4% í lok næsta árs.“

Hagstofan birtir nóvembergildi vísitölu neysuverðs þann 25. nóvember næstkomandi.