Greiningardeild Glitnis spáir því að Seðlabankinn muni á morgun tilkynna um 0,5 prósentustiga vaxtahækkun. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningardeildarinnar.

Þar er bent á að stýrivextir bankans verði þá 14% og eigum þeir von á að þetta verði annaðhvort síðasta eða næst-síðasta hækkun bankans í vaxtahækkunarferli sem staðið hefur frá vordögum 2004. "Verðbólgan hefur náð hámarki og markar hjöðnun hennar í þessum mánuði upphafið að ferli sem mun skila verðbólgunni niður í verðbólgumarkmið bankans um þarnæstu áramót. Verðbólgan er hins vegar enn há og þenslan nokkur í þjóðarbúskapnum sem mun eflaust knýja Seðlabankann til að halda stýrivöxtum sínum háum nokkuð fram á næsta ár," segir greiningardeild Glitnis í Morgunkorni sínu.

Þó verðbólgan sé tekin að hjaðna þá eru enn merki um mikinn vöxt og verðbólguþrýsting í hagkerfinu. Atvinnuleysi er minna en nokkru sinni fyrr og hagvöxtur á síðasta ári mælist nú mun meiri en áður samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu og langt umfram þann vöxt er samrýmist lágri verðbólgu. Verðbólgan mun áfram vera mikil fram á næsta ár og gæti aukist lítillega á næstu mánuðum frá því sem nú er.

Seðlabankinn setur ekki fram nýjar verðbólgu- og þjóðhagsspár að þessu sinni og hefur því minna svigrúm en ella til að rökstyðja verulegar breytingar á vaxtastefnu sinni. Samfara vaxtaákvörðun í byrjun nóvember mun Seðlabankinn hins vegar gefa út nýtt hefti Peningamála sem innihalda mun nýjar spár um verðbólgu og efnahagsframvindu. Líklegt er að verðbólguspá bankans verði þá mun hagfelldari en sú spá sem birt var í júlí. Olíuverð hefur lækkað, húsnæðismarkaður kólnað og ef ekki verður veruleg lækkun á gengi krónu mun sá þáttur einnig vega til lækkunar á spá bankans. Því er líklegt að við töluvert annan tón kveði þegar Seðlabankamenn tilkynni vaxtaákvörðun sína í nóvember, og er ekki ólíklegt að tækifærið þá verði nýtt til að rökstyðja ákvörðun um að halda stýrivöxtum óbreyttum segir í Morgunkorni.