Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki stýrivexti um 0,5% á næsta vaxtaákvörðunardegi. Næsti ákvörðunardagur er 3. nóvember næstkomandi.

Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnanna yrðu þá 4,25% og vextir lána gegn veði til sjö daga lækkuðu í 5,75%.

Síðast lækkaði Seðlabankinn stýrivexti um 0,75%.

„Eftir síðustu vaxtaákvörðun lýsti peningastefnunefndin því yfir að eitthvert svigrúm væri enn til staðar til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist, og verðbólga hjaðnaði eins og spáð er. Um er að ræða viðlíka yfirlýsingu og eftir síðustu vaxtaákvarðanir nefndarinnar nema nú er búið að bæta inn „eitthvert“ sem kann að benda til þess að vaxtalækkunarferillinn sé að nálgast botninn,“ segir í morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Þá segir að gengi krónunnar hafi haldist stöðugt þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi á tímabilinu keypt gjaldeyri til að efla þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er fenginn að láni. Verðbólga hafi ekki hjaðnað. Við síðustu vaxtaákvörðun stóð verðbólgan í 4,5% en er nú 3,7%.

Afnám gjaldeyrishafta flækir málið

„Peningastefnunefndin taldi við síðustu vaxtaákvörðun sína að áætlanir um afnám hafta skapi óvissu um hversu mikið svigrúm sé til að lækka vexti til skemmri tíma litið. Á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar sagði Seðlabankastjóri að flest skilyrði yrðu til staðar fyrir afnám gjaldeyrishafta á næstu vikum. Sagði hann m.a. að verulega hefði dregið úr óvissu um styrk fjármálakerfisins í kjölfar nýlegs dóms Hæstaréttar um vexti á gengistryggðum lánum og að líkur væru á að þriðja endurskoðun áætlunar AGS og stjórnvalda yrði í höfn um mánaðamótin sem síðan varð raunin. Sagði Már að bankinn yrði að leggja meiri áherslu á afnám gjaldeyrishaftanna og að það myndi flækja framkvæmd peningastefnunnar til skemmri tíma litið.

Viðbrögð skuldabréfamarkaðarins við þessari auknu áherslu á gjaldeyrishöftin og afnám þeirra voru mikil og hækkaði ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra umtalsvert. Peningastefnunefndin hefur hins vegar á undangengnum mánuðum slegið í og úr í áherslum sínum á afnám haftanna og verður áhugavert að sjá hvort áherslan á afnám haftanna verði eins mikil nú 3. nóvember og hún var 22. september síðastliðinn. Reiknum við með því að bankinn dragi nokkuð úr í þeim efnum og ræði um að afnám haftanna sé ferill sem gæti tekið nokkurn tíma. Teljum við að þó svo að eitthvað lítið skref verði tekið í þeim efnum á næstu vikum er fullt afnám haftanna aðgerð sem geti vel tekið nokkur ár.

Stýrivextir 5,0% snemma á næsta ári

Reikna má fastlega með því nú að peningastefnunefndin endurtaki yfirlýsingu sína um að haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur að vera fyrir hendi að slaka eitthvað frekar á aðhaldinu í peningamálum. Má í því ljósi vænta þess að nefndin lækki vexti bankans áfram á næstunni, en þó með þeim skorðum sem uppbygging fjármálakerfisins og áætlun um afnám gjaldeyrishafta setja vaxtastefnunni. Spáum við því að nefndin verði komin með veðlánavexti bankans niður í 5,0% snemma á næsta ári en á árinu eru eftir tveir vaxtaákvörðunardagar.“