Capacent spáir 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs í febrúar. Á sama tíma fyrir ári síðan hækkaði vísitala neysluverðs um 0,7% og lækkar því ársverðbólgan samkvæmt spánni úr 0,8% í 0,7%.

„Nokkur óvissa er til staðar sem liggur aðallega í hvernig mæling á verði flugfargjalda verður í mánuðinum. Lausleg könnun bendir til að verð flugfargjalda hafi hækkað milli janúar og febrúar enda hefur verð á olíu hækkað um 15% frá lokum janúar,“ segir í tilkynningu frá Capacent.

Hins vegar er gert ráð fyrir að sú lækkun sem gert var ráð fyrir í síðasta mánuði komi til móts við þá hækkun sem verðkönnun bendir til að hafi orðið milli janúar og febrúar. Er því gert ráð fyrir lækkun flugfargjalda sem nemur 7,5% sem hafi 0,12% áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar.

Annar liður sem hækkun olíuverðs hefur áhrif á er eldsneytisverð en það hefur hækkað um 2,5% samfara hækkun olíuverðs. Áhrif þess á vísitölu neysluverðs að mati Capacent eru 0,1% til hækkunar en ekki er gert ráð fyrir frekari hækkun eldsneytisverðs þar sem olíuverð hefur dalað síðustu daga.

Þá er gert ráð fyrir útsölulok muni skila sér í 0,5 til 0,6% hækkun á vísitölu neysluverðs. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir hækkun matvælaverðs.

Ef spá Fjármálaráðgjafar Capacent gengur eftir er verðbólgan þriðja mánuðinn í röð undir neðri mörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabanka og heldur að lækka. Ef horft er á vísitölu neysluverðs án húsnæðis var verðhjöðnun sem nam 0,6% í janúar síðastliðnum.