Greining Íslandsbanka spáir 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs í september og gangi spáin eftir verður tólf mánaða verðbólga 5,6%. Svo mikil hefur verðbólga ekki verið síðan í júní í fyrra samkvæmt Morgunkorni. Þar segir að útsölulok muni skýra meira en helming hækkunarinnar en jafnframt komi í september hækkun ýmissa tómstunda- og afþreyingargjalda, svo sem áskriftargjald Stöðvar 2, auk þess sem leikhús og íþróttafélög hækki gjaldskrá sína í upphafi nýs starfsárs.

Ekki er gert ráð fyrir að húsnæðisverð hafi áhrif til hækkunar og þá er reiknað með að eldsneytisverð verði nokkurn veginn óbreytt.