IFS greinings spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,6% í janúar frá fyrri mánuði og að tólf mánaða verðbólga mælist 2,2%. Til samanburðar nam lækkun vísitölunnar 0,3% í janúar 2010.

Ef spáin gengur eftir, mun 12 mánaða verðbólga mælast 2,2%. Verðbólga undanfarna þrjá mánuði á ársgrundvelli lækkar úr 4,6% í -0,9% þar sem 0,74% verðbólga í október dettur úr mælingunni. Hagstofan mælir vísitölu neysluverðs í þessari viku en niðurstöðurnar verða birtar miðvikudaginn 26. janúar n.k.

Spá IFS greiningar:

Liðir sem lækka

Útvarpsgjald: Samkvæmt minnisblaði Hagstofu Íslands frá 22. desember 2010 verða breytingar á útreikningi útvarpsgjalds í VNV. Þar sem ekki er lengur hægt að tengja gjaldtökuna beint við rekstur RÚV er verð sett jafnt og núll og kemur þess vegna fram sem lækkun í vísitölunni (vísitöluáhrif: -0,4%).

Janúarútsölur hafa áhrif til lækkunar: Samkvæmt verðmælingum okkar og mati var meðaltalslækkun á fatnaði og skóm um 10% (vísitöluáhrif: -0,67).

Reiknuð húsaleiga og viðhald lækka: Þriggja mánaða vegið meðaltal fjölbýlis og sérbýlis lækkar um rúmt prósentustig en hafa ber í huga að fáar sölur eru í mælingunni og fleiri bætast við daglega (vísitöluáhrif: -0,09).

Hækkun á flugfargjöldum til útlanda í desember uppá 15,5% á líklega eftir að ganga til baka að einhverju leyti í janúar (vísitöluáhrif: -0,12).

Liðir sem hækka

Samkvæmt algengum verðum hjá stóru olíufélögunum hefur verð á bensíni hækkað um 3,07% og verð á dísel hefur hækkað um 3,34% (vísitöluáhrif: +0,18).

Flutningar hafa einnig hækkað í verði í gegnum olíugjöld.

Gjaldskrárhækkanir hjá hinu opinbera: Hækkun útsvars nokkurra sveitarfélaga, gjaldskrárhækkanir leikskóla Reykjavíkur o.fl. hefur áhrif á vísitöluna til hækkunar (vísitöluáhrif +0,3).

Matarkarfan hækkar einnig samkvæmtmælingu IFS

Mánaðarleg verðmæling IFS bendir til 1,4% hækkunar á verði matarkörfunnar (vísitöluáhrif: +0,17%) eftir að hafa hækkað um 0,2% í desember. Mæling á verði matarkörfunnar er framkvæmd á ákveðnum vörum sem nær ávallt eru til sölu og svo virðist sem að þær hafi hækkað í verði frá því í desember.