Greiningardeild Íslandsbanka spáir 0,7% samdrætti á þessu ári og segir að snarpur samdráttur í útflutningi eigi stærsta þáttinn í efnahagssamdrætti í ár. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri Þjóðhagsspá bankans fyrir árin 2019-2021.

„Á næsta ári gerum við ráð fyrir fremur hægum hagvexti, eða 1,5%, drifnum af einkaneyslu og fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og innviðum. Meiri kraftur færist svo í vöxtinn árið 2021 en þá er spáð 2,7% vexti eftir því sem meiri þróttur færist í fjárfestingu atvinnuvega og útflutning á nýjan leik," segir í spánni.

Greiningardeildin tiltekur nokkra áhættuþætti sem gætu orðið til þess að niðursveiflan verði afar þungbær. Þeir eru eftirfarandi:

  1. Kjarasamningar: Verðbólguþrýstingur þegar frá líður. Fellir rauða vaxtarstrikið samningana?
  2. Útlönd: Líkur á efnahagssamdrætti meðal iðnríkja hafa aukist. Viðskiptastríð og hart Brexit vofa yfir alþjóðahagkerfinu.
  3. Ferðaþjónustan: Hversu lanngvinnur verður skellurinn vegna falls WOW og kyrrsetningar MAX véla?
  4. Íbúðamarkaður: Verður framboðið „of mikið of seint" á sama tíma og bein og óbein áhrif frá ferðaþjónustu draga úr eftirspurn?
  5. Krónan: Dýpri samdráttur í útflutningi gæti kallað á veikingu, sér í lagi ef áhugi erlendra fjárfesta minnkar aftur.

Í lokin er svo komið að því að það muni milda höggið á efnahagslífið talsvert að efnahagsreikningur þjóðarbúsins er mun mildari en áður.

„Góðu heilli eru möguleikar Íslendinga til að takast á við mótbyr í efnahagslífinu talsverðir. Þar skiptir mestu að skuldsetning í hagkerfinu er almennt mun hóflegri og heilbrigðari en verið hefur. Gildir það bæði um innlenda skuldsetningu og eins um ytri efnahagsreikning þjóðarbúsins," segir jafnframt.