Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi þann 13. maí. Helstu rök nefndarinnar verði að rétt sé að staldra við uns niðurstaða fæst í kjarasamningsviðræðna sem nú eru yfirstandandi.

Greiningardeildin spáir því að verðbólga muni aukast á þessu ári og verða áfram umtalsvert meiri en Seðlabankinn spáir í sinni nýjustu verðbólguspá, vegna krafna um mjög miklar hækkanir nafnlauna. Er því spáð að verðbólgan fari á næsta ári yfir 2,5% verðbólgumarkmið bankans. Einnig muni áframhaldandi verðhækkun íbúðarhúsnæðis spila þar inn í.

Þess vegna spáir deildin því að peningastefnunefndin bregðist við aukinni verðbólgu, miklum innlendum launahækkunum, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með hækkun stýrivaxta bankans um 0,75 prósentustig á þessu ári og 0,5 prósentustiga vaxtahækkun á því næsta.

Lesa má greininguna í heild sinni hér.