Hagfræðideild Landsbankans spáir því að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti um 0,75 prósentustig, úr 3,75% í 4,5% við vaxtaákvörðun á miðvikudaginn næsta. Reynist það rétt þá verða stýrivextir Seðlabankans orðnir jafnháir og árið 2019.

Í þjóðhagsspá Landsbankans sem kom út í maí taldi hún líklegast að stýrivextir yrði hækkaðir um 0,5 prósentustig í júní. „Þróunin síðan gerir það að verkum að við teljum núna líklegt að nefndin taki stærri skref. Verðbólguhorfur hafa versnað, gögn um innlenda kortaveltu sýna að eftirspurnarþrýstingur er mikill og tölur hafa birst sem sýndu mikinn hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi.

Verðbólga mældist 7,6% í síðasta mánuði og hefur ekki verið meiri frá því í apríl 2010. Greiningardeildir bankanna eiga von á að verðbólgan taki stökk á milli mánaða. Greining Íslandsbanka spáir því að verðbólgan fari í 8,4% í júní en hagfræðideild Landsbankans spáir því að hún verði 8,7%. Hagfræðideildin áætlar að fjórir undirliðir vísitölu neysluverðs - matarkarfan, reiknuð húsaleiga, eldsneyti og flugfargjöld til útlanda – muni samtals hafi 1,0% áhrif til hækkunar.

„Heimsmarkaðsverð á hrávörum hefur hækkað og verðbólgutölur í helstu hagkerfum heims hafa verið yfir væntingum. Meðal annars mældist 8,6% verðbólga í Bandaríkjunum í maí sem var nokkuð yfir væntingum. Á sama tíma hefur lítið gerst sem bendir til að það sé byrjað að hægja á fasteignamarkaði hér á landi,“ segir í hagsjánni. Þar er bent á að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 2,75 á milli mánaða í apríl.

Hagfræðideildin telur að nýjar tölur um greiðslukortaveltu og hagvöxt gefi til kynna að eftirspurn sé enn mikil í hagkerfinu sem skapar þrýsting á verðlag.