Greining Íslandsbanka spaír 0,8% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í apríl. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga verða 2,9%. Svo há hefur hún ekki mælst síðan í október í fyrra. „Verði spáin að veruleika er það einnig í fyrsta skipti á þessu ári sem verðbólga mælist yfir 2,5% markmiði Seðlabanka Íslands. Hagstofan birtir aprílmælingu VNV kl.9:00 fimmtudaginn 28. apríl,“ segir í Morgunkorni greiningar í dag.

Úr morgunkorni:

„Eldsneytisverð á drjúgan þátt í hækkuninni nú, líkt og undanfarna mánuði. Gerum við ráð fyrir að verðhækkun á bensíni og díselolíu leiði til 0,2% hækkunar VNV að þessu sinni. Þá virðast útsölulok hafa dregist venju fremur á langinn og má eiga von á nokkurri hækkun á innfluttum vörum á borð við fatnað og húsbúnað. Skilar það hækkun á VNV sem nemur nálega fjórðungi úr prósentu í apríl að mati okkar. Einnig eru vísbendingar um nokkra hækkun matvöru og teljum við að VNV hækki um 0,15% vegna þess í mánuðinum. Þá áætlum við að húsnæðisliður vísitölunnar hafi áhrif til 0,1% hækkunar hennar. Auk leiðréttingar á viðhaldslið þessa þáttar, sem Hagstofan tilkynnti um fyrr í mánuðinum, teljum við vísbendingar um að markaðsverð á íbúðarhúsnæði kunni að mælast nokkru hærra hjá Hagstofunni í apríl en raunin var í fyrri mánuði.

Frekari hækkun á næstu mánuðum

Í maí má svo eiga von á nokkurri hækkun VNV til viðbótar, enda kemur þá inn í mælinguna verðskrárhækkun Orkuveitu Reykjavíkur sem tilkynnt var nýlega. Einhver frekari hækkun gæti svo orðið á vísitölunni í júní. Í heild gerum við ráð fyrir að VNV hækki um 1,5% á öðrum fjórðungi ársins og að verðbólga mælist nokkuð yfir 3% um mitt ár. Eru það öllu lakari verðbólguhorfur en útlit var fyrir í upphafi ársins. Það veltur svo að verulegu leyti á gengisþróun krónu og þróuninni á eldsneytis og hrávörumörkuðum erlendis hvort verðbólgan hjaðnar aftur niður að markmiði Seðlabankans á seinni hluta ársins, auk þess sem íbúðamarkaður og niðurstöður kjarasamninga munu einnig leika þar hlutverk.“

Verðbólguspá fyrir apríl .