Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti fyrr í dag spá sína fyrir horfur í heimshagkerfinu. Í spánni er gert ráð fyrir að hagvöxtur á heimsvísu muni nema 3% á árinu í ár sem er lækkun um 0,2 prósentustig frá síðustu spá sjóðsins frá því í apríl. Að mati sjóðsins er aukin spenna í alþjóðaviðskiptum, óvissa vegna Brexit í alþjóðastjórnmálum helstu rökin fyrir lægri spá.

Þá hefur sjóðurinn lækkað hagvaxtarhorfur sínar fyrir Ísland. AGS lækkar hagvaxtarhorfur fyrir Ísland úr 1,7% niður í 0,8% fyrir árið í ár en spáin er þó bjartsýnni en nýjasta spá Seðlabankans sem gerir ráð fyrir 0,4% samdrætti á árinu auk þess sem nýleg þjóðhagsspá Íslandsbanka gerir ráð fyrir 0,1% samdrætti á árinu.

AGS gerir ráð fyrir að hagvöxtur taki við sér á næsta ári og verði 1,6% auk þess sem gert er ráð fyrir að hagvöxtur árið 2024 verði 1,9%. AGS hefur því einnig lækkað langtíma hagvaxtarhorfur en í spánni frá því í apríl var gert ráð fyrir 2,9% hagvexti á næsta ári og 2,5% hagvexti árið 2024.

AGS gerir auk þess ráð fyrir að hagvöxtur muni dragast saman í flestum af þróuðu hagkerfum heimsins þar sem gert er ráð fyrir 1,7% hagvexti miðað við 2,3% vöxt á síðasta ári.  Þannig gerir sjóðurinn ráð fyrir að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði 2,4% í ár samanborið við 2,9% á síðasta ári, hagvöxtur verði 1,2% í Bretlandi og lækki um 0,2 prósentustig milli ára auk þess sem sjóðurinn spáir 0,5% hagvexti í Þýskalandi samanborið við 1,5% vöxt á síðasta ári. Þá gerir AGS ráð fyrir að hagvöxtur í Kína verði 6,1% á árinu en hann var 6,6% í fyrra.