Seðlabankinn spáir nú 7,7% hagsamdrætti á nýliðnu ári, í stað 8,5% eins og spáð var í nóvember. Gert er ráð fyrir kröftugum efnahagsbata í helstu viðskiptalöndum Íslands þegar líða tekur á árið og víðtæk bólusetning fer að segja til sín í efnahagsmálum. Þetta kemur fram í nýútgefnum Peningamálum Seðlabankans samhliða vaxtaákvörðun í morgun.

Bankinn spáir hóflegum 2,5% hagvexti á þessu ári, kröftugum 5,1% á því næsta, en hann hjaðni svo í 4,1% árið 2023. Þetta þýðir að verg landsframleiðsla verður nánast komin á sama stig 2022 og hún var 2019, eða aðeins 0,6% lægri.

Grunnspáin gerir ennfremur ráð fyrir að atvinnuleysi – sem mældist tæp 11% í desember – fari að hjaðna um mitt þetta ár, en verði þó hærra út árið 2023 en það var fyrir faraldurinn.

Þegar kemur að verðbólgu er því spáð að hún gangi hratt niður næstu misseri og verði komin í markmið (2,5%) fyrir árslok, og fari enn neðar á því næsta. Áhrif veikingar krónunnar séu þegar tekin að minnka eftir styrkingu hennar á ný nú í vetur, og enn sé talsverður slaki í þjóðarbúinu. Þá er greint frá því að verðbólguvæntingar hafi haldist tiltölulega stöðugar.