Capacent spáir því að vísitala neysluverðs muni lækka um 0,1% í þessum mánuði. Ef spáin gengur eftir mun verðbólga mælast 1,6% í júlí. Verðbólgan mun þá hafa verið 18 mánuði samfellt undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Síðasta gildi vísitölu íbúðaverðs, sem Þjóðskrá gefur út, er frá því í marsmánuði. Í næstu viku verða birtar vísitölur íbúðaverðs vegna síðustu þriggja mánaða. Capacent spáir því að hækkun fasteignaverðs milli mánaða muni vera 1% í júlímánuði. Hækkun fasteignaverðs muni hafa 0,15% áhrif á neysluvísitöluna til hækkunar.

Capacent bendir á það í greiningu sinni að verðþróun á ávöxtum annars vegar og sælgæti hins vegar sé ekki beint til þess fallin að ýta undir holla neysluhætti. Verð á sykri og sykurvörum hafi lækkað um 5,4% síðustu 12 mánuði, en verð á ávöxtum hafi hækkað um 13,0% á sama tímabili.