Bílgreinasambandið spáir því að um 12.750 nýir fólksbíla verði skráðir á árinu 2020 en gerir það um 10% aukningu frá árinu sem er að ljúka. Þetta kemur fram í fréttabréfi Bílgreinasambandsins fyrir desembermánuð.

Í fréttabréfinu segir að samkvæmt bæði Arion banka og Íslandsbanka sé spáð lítils háttar vexti í einkaneyslu fyrir næsta ár. Þá hafi stórkaupavísitala Gallup, sem mælir meðal annars hversu líklegir neytendur eru til að festa kaup á bifreið á næstu 6 mánuðum, hækkað í síðustu þremur mælingum miða við sama tíma á síðasta ári. Að sama skapi séu vextir í sögulegu lágmarki sem gæti ýtt undir sölu á nýjum bílum.

Þá bendir Bílgreinasambandið á að meðalaldur fólksbílaflotans sé einnig að hækka en stórir árgangar í bílaflotanum eru komnir á meðalaldur sem í fyrra var 12,3 ár og fer hækkandi. Uppsöfnuð fjárfestingaþörf bílaleigna muni hafa áhrif á fjölda seldra nýrra fólksbíla árið 2020 en nýskráðir fólksbílar til bílaleigna í ár voru um 30% undir sölu þeirra á árinu 2018. Meðalaldur bílaleiguflotans sé einnig að hækka og um 20% flotans séu nýir bílar sem er töluvert lægra en hefur verið síðustu 4 ár.

„Einnig eru jákvæðar breytingar þar sem Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur nú skilað af sér í áliti vegna frumvarps um breytingar á ýmsum lögum um skatta (vistvæn ökutæki o.fl.). Þar er m.a. er fjallað um ívilnanir vegna rafmagns-, vetnis-, og tengiltvinnbíla næstu árin. Þar er lagt til að hækka ívilnanir til rafmagns- og vetnisbíla en einnig tekur nefndin undir sjónarmið Bílgreinasambandsins og leggur til að frumvarpinu verði breytt á þann hátt að það framlengi enn frekar ívilnunum vegna tengiltvinnbíla ásamt því að hækka fjöldamörk þeirra ökutækja upp í 15.000 í stað 12.500. Á næsta ári munum við einnig að sjá aukið úrval rafmagns- og tengiltvinnabíla koma inn á markaðinn,“ segir að lokum í fréttabréfinu.