Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,5% í ágúst þá mun 12 mánaða verðbólga mælast 10% í ágúst en hún var 9,9% í júlí. Gangi spáin eftir mun verðbólga ekki hafa verið hærri í nærri 13 ár eða frá því í september 2009.

Útsölulok og íbúðarverð munu verka til hækkunar samkvæmt verðbólguspá bankans en þar er jafnframt gert ráð fyrir því að eldsneytisverð og verð á flugfargjöldum muni vega á móti til lækkunar.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir því að 12 mánaða verðbólga muni ná toppi nú í ágúst og september. Bráðabirgðaspá bankans gerir ráð fyrir að verðbólguhækkanir taki að hægja á sér þegar líður á hausti en hún spáir 0,5% hækkun vísitöluneysluverðs í september, 0,4% hækkun í október og 0,3% hækkun í nóvember. Gangi bráðabirgðaspáin eftir mun verðbólga mælast 9,7% í nóvember.

Í gær kynnti greiningardeild Landsbankans verðbólguspá sína. Hún er heldur bjartsýnni en spá Íslandsbanka en þar er gert ráð fyrir 0,4% hækkun á vísitölu neysluverðs í ágúst og að verðbólga verði komin niður fyrir 9% í nóvember.

Sjá einnig: Spá því að verðbólgutoppnum sé náð