Bandaríska ríkið skuldar nú um 19.964 milljarða dala. Samkvæmt nýrri skýrslu, sem unnin var af Congressional Budget Office, gætu þessar skuldir hækkað um allt að 10.000 milljarða á næstu tíu árum.

Nefndin hefur áhyggjur af því að ný ríkisstjórn muni koma til með að lækka skatta og hækka útgjöld óhóflega. Spá nefndarinnar vekur því líklegast litla lukku meðal Repúblikana, sem hafa reynt að kenna Demókrötum um skuldaaukningu síðustu ára.

Árið 2011 voru þó innleidd lög sem áttu að tempra þróunina, en þá var aðallega litið til þess að draga úr útgjöldum til varnarmála. CBO telur að slík lög muni þjóna litlum tilgangi í framtíðinni, enda muni hækkandi meðalaldur leiða til umtalsverðra útgjaldaaukninga á sviði almannatrygginga.