Samtök atvinnulífsins áætla að 11.500 ný störf verði til hér á landi á árunum 2015 til 2017. Þá gera þau ráð fyrir að 5.700 ný störf hafi orðið til á þessu ári, að 3.200 störf verði til á því næsta og um 2.600 árið 2017.

Þetta kemur fram í áætlun SA sem greint er frá í Morgunblaðinu í morgun en þar er einnig greint frá áætlun Vinnumálastofnunar sem gerir ráð fyrir sömu fjölgun á tímabilinu sem dreifist þó með frábrugðnum hætti yfir árin. Gerir Vinnumálastofnun ráð fyrir 5.000 störfum á þessu ári, 4.000 árið 2016 og 2.500 árið 2017.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið að fjölgun starfa verði ekki mönnuð nema með innflutningi á starfsfólki. „Það blasir við að starfsfólk er ekki fyrir hendi til að manna þau störf sem skapast. Þrátt fyrir náttúrulega fjölgun á vinnumarkaði er hún engan veginn nægileg til að mæta þessum mikla vexti,“ segir Þorsteinn.