„Hvert fór krepp­an,“ spyr Greining Íslandsbanka í fyrirsögn fréttar um nýja þjóðhagsspá sem birt var í dag. Þótt uppsveiflan sem einkennt hafi efnahagslífið undanfarin ár sé nú á enda telur Greining að góðar líkur séu á að aðlögun hagkerfisins að breyttum tímum verði léttbærari en oft áður í íslenskri hagsögu.

„Útlit er fyrir 0,1% samdrátt VLF á árinu 2019. Raunar er nær lagi að segja að hagvöxtur verði við núllið þar sem ofangreind tala er talsvert innan skekkjumarka frá núlli. Snarpur samdráttur í fjármunamyndun atvinnuvega og þjónustuútflutningi vegur þar upp vöxt neyslu og mikinn samdrátt innflutnings. Á næsta ári gerum við ráð fyrir fremur hægum vexti, eða 1,3%, drifnum af hóflegum vexti innlendrar eftirspurnar. Meiri kraftur færist svo í vöxtinn árið 2021 að mati okkar en þá spáum við 2,8% vexti eftir því sem meiri þróttur færist í einkaneyslu og útflutning á nýjan leik,“ segir ennfremur í fréttinni á vef bankans.

Skýringu á hagsveiflunni rekur deildin að stórum hluta til sveiflna í útflutningi. Á þessu ári dragist útflutningur saman um 6%, en í spánni er reiknað með að hann vaxi um 1,1% á næsta ára. Þrátt fyrir samdrátt er gert ráð fyrir að afgangur af utanríkisviðskiptum verði 3,5% í ár og 2,2% á því næsta.

Verðbólguhorfur eru skaplegar að mati deildarinnar og verður 3,1% á þessu ári og 2,6% árið 2020. Kaupmáttur launa hefur aukist mikið undanfarin ár en það hægir tímabundið á vextinum í ár (1,8%) og því næsta (1,9%).

Hægari vöxtur hagkerfisins á komandi misserum endurspeglast helst í auknu atvinnuleysi. Samkvæmt spá Íslandsbanka verður atvinnuleysi á þessu ári 3,6% og fer upp í 4,2% á næsta ári.

Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka má lesa í heild hér .